Líkaminn þarf hreyfingu

Líkaminn er skapaður fyrir hreyfingu og ef við notum hann ekki hrörnar hann og gefur sig.  Glöggt dæmi um þetta er að ef útlimur er settur í gips rýrna vöðvarnir sem undir eru og missa styrk sinn.  Sama gildir um annað í líkamanum svo sem hjarta og bein.  Þannig að ef ekki er reynt áhjarta, vöðva og bein með hreyfingu getur það valdið sjúkdómum seinna á lífsleiðinni svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, beinþynningu, vöðvabólgum og bakverkjum.  Hreyfing hefur einnig áhrif á fleiri þætti.  Þannig hefur verið sýnt fram á  með rannsóknum að hreyfing á yngri árum hefur áhrif á lífsstíll seinna meir.   Unglingar sem þjálfa reglubundið reykja síður, eru að meðaltali léttari,  ná betri námsárangri  og líður betur.

Foreldrar eru mikilvægir mótunaraðilar í hreyfivenjum barna. Jákvætt viðhorf og hvatning foreldra ásamt því að vera góðar fyrirmyndir skiptir sköpum fyrir barnið.

Þá er einnig gott að hafa í huga að hreyfing barna þarf ekki að vera skipulögð. Leikurinn ætti að vera rauði þráðurinn í hreyfingu barna, ein klukkustund  á dag utan skólatíma í leikjum úti er fyllilega nóg fyrir börn en þau mega alltaf hreyfa sig meira.

Við hvetjum því foreldra til að gefa börnum sínum gott veganesti út í lífið með því að hvetja þau til að hreyfa sig á hverjum degi.

This entry was posted in Greinar. Bookmark the permalink.

Leave a Reply